Birkifræ

Landsöfnun

 

Skógræktin og Landgræðslan

Skógræktin og Landgræðslan taka nú höndum saman og óska eftir stuðningi landsmanna við að breiða birkiskóga landsins út. Í haust verður farið í átak til að safna birkifræi sem verður dreift á völdum beitarfriðuðum svæðum í öllum landshlutum. Hægt er að fá söfnunarbox á starfsstöðvum Skógræktarinnar, Landgræðslunnar, Terru og í verslunum Bónuss.

Samstarfsaðilar Skógræktarinnar og Landgræðslunnar eru auk Terru og Bónuss eru Prentmet Oddi, Landvernd, Kópavogsbær, Skógræktarfélag Íslands og Lionshreyfingin.

Hugmyndin er að almenningur og hópar vítt og breitt um landið safni birkifræi í nágrenni sínu eða í völdum birkiskógum í sínum landshluta. Hægt er að skila birkifræi í sérmerktar tunnur sem eru í verslunum Bónuss, á starfsstöðvum Terra, Skógræktarinnar og Landgræðslunnar.

Þeir sem skila fræi á söfnunarstöðvar geta notað box átaksins eða sett fræið í pappírspoka eða poka úr taui – efnið þarf að geta “andað”. Fræið þarf að vera í kæli ef þarf að geyma það. Alltaf þarf að skrá hvar og hvenær fræið var tínt. Hægt er að skrifa þetta á box átaksins en komi fólk með eigin poka verða þessar upplýsingar að fylgja pokanum.

Fræi sem er skilað á söfnunarstöðvar verður dreift í haust undir leiðsögn starfsmanna Skógræktarinnar og Landgræðslunnar.