Endurheimt birkis með aðferðum sjálfgræðslu

 

Sjálfgræðsla

Við sjálfgræðslu þarf að huga að því að birkilundir innan svæða (gróðursettir eða fræsáning) séu þannig staðsettir að frædreifing frá þeim fari yfir svæði þar sem landnámsskilyrði eru best.

Frædreifing er mest undan ríkjandi þurri vindátt og taka þarf tillit til þess við val á staðsetningu birkilunda. Allir landsmenn geta tekið þátt í að auka útbreiðslu birkiskóga með því að safna fræi og dreifa á valin svæði og/eða planta birkiplöntum í litla lundi. Báðar aðferðirnar byggja upp nýja fræbanka á svæðinu sem síðar stuðla að sjálfgræðslu þess.

Endurheimt birkiskóga er mikilvægt verkefni og í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum gegnir hún stóru hlutverki. Í því sambandi er sjálfgræðsla birkis lykilþáttur.

Þórsmörk

Í huga marga er endurheimt birkiskóga með sjálfgræðslu hægvirk aðferð. Dæmin sýna að það svo er ekki. Sem dæmi má nefna Þórsmörkina. Um 1990 var Þórsmörk að mestu leyti rofið land með lítilsháttar birkileifum. Nú, um 30 árum seinna má heita að Þórsmörkin sé algróin skógi. Það er ekki síst að þakka öflugu starfi sjálfboðaliða sem stuðluðu að aukinni sjálfgræðslu Merkurinnar.

Skeiðarársandur

Starfsfólk Landgræðslunnar og Háskóla Íslands hefur rannsakað landnám birkis á Skeiðarársandi sl. tvo áratugi og auka þær rannsóknir enn frekar þekkingu okkar á því hvernig birki nemur land á lítt grónu landi. Fyrstu birkiplönturnar námu land á sandinum í kringum 1990 og á ríflega aldarfjórðungi er útbreiðsla þess orðin yfir þrjú þúsund hektarar. Það er mikilvægt að skilja þessi náttúrulegu ferli og nýta þau til að efla sjálfgræðslu birkis.