Besta myndbandið um birki!

Átakið Söfnum og dreifum birkifræi efnir til stuttmyndasamkeppni meðal nemenda í grunn- og framhaldsskólum. Samkeppnin hefst formlega 27. apríl. Hægt er að skila inn mynd(um) til og með 30. september. Úrslit verða tilkynnt um miðjan október 2021. Innsent efni verður að fjalla um birki. Ákveðið var að hefja keppnina í vor svo þátttakendur gætu tekið myndskeið af birki á öllum þroskastigum – allt frá því að fyrstu sprotarnir koma í ljós þar til reklar verða fullþroska í haust. Vel má vera að sumir þátttakenda vilji mynda þennan feril frá upphafi til enda.

Hverjir geta tekið þátt?

Þátttakendur verða að vera nemendur í grunn- eða framhaldsskólum. Athugið að aðeins einn höfundur getur verið skrifaður fyrir hverju myndbandi.

I. Flokkur – framhaldsskólar
Hámarkslengd myndbands: 60 sek

II. Flokkur – grunnskólar
Hámarkslengd myndbands: 60 sek

Hver þátttakandi getur sent inn fimm myndir inn í sinn flokk. Engar hömlur eru settar hvað varðar tæki sem eru notuð við gerð myndbanda. Sama gildir um efnismeðferð. Hins vegar eru gerðar kröfur um að myndin/myndirnar frá hverjum og einum fjalli um birki á Íslandi, lengd innsendra myndbanda fari ekki yfir 60 sekúndur og að skráningarformið á www.birkiskogur.is sé fyllt út.

Aldurstakmörk á samfélagsmiðlum eru 13 ár á Íslandi. Ef þátttakandi er yngri en 13 ára verður hann að hafa leyfi foreldra/forráðamanna til að taka þátt.

Veitt verða þrenn verðlaun í hvorum flokki. 1., 2. og 3. verðlaun.

 

Landgræðslan

Landgræðslan er þekkingar- og þjónustustofnun. Markmiðin eru að vernda, endurheimta og bæta þær auðlindir þjóðarinnar sem fólgnar eru í gróðri og jarðvegi og tryggja sjálfbæra nýtingu lands. Landgræðslan starfar eftir lögum um landgræðslu nr 155/2018

Skógræktin

Hlutverk Skógræktarinnar er að hafa forystu um uppbyggingu skógarauðlindar á Íslandi með víðtækri samvinnu, vinna að vernd og friðun skóga og draga fram hagrænan, umhverfislegan og samfélagslegan ávinning af sjálfbærri nýtingu skóga.

Myndböndin verða að hafa heiti. Það er á ábyrgð þátttakenda að leyfi sé til staðar fyrir aðfengnu efni. Öll notkun á efni sem er fengið að láni er á ábyrgð þeirra sem búa til myndböndin.

Birkiverkefnið hvetur til þess að eingöngu sé notað efni sem þáttakendur hafa tekið upp og framleitt sjálfir.

Hvernig á að skila inn efni?

Þegar myndbandið er tilbúið (og uppfyllir skilyrði hér að framan) á þátttakandi að pósta því á sínum Instagram reikningi og nota myllumerki keppninnar sem er #birki2021

Á síðunni www.birkiskogur.is er skráningarform sem þátttakandi þarf að útfylla. Þar þarf m.a. að koma fram nafn höfundar, heiti Instragram reiknings, sími, netfang og slóð inn á myndbandið. Hægt verður að skoða innsend myndbönd á síðunni www.birkiskogur.is

Lokafrestur til að skila myndbandi er til miðnættis 30. september 2021.

Verðlaun, dómnefnd og frekari upplýsingar
Heimilistæki og Tölvulistinn leggja til vegleg verðlaun.

Framhaldsskólavinningar

 1. Apple iPhone 12 64GB í lit að eigin vali
 2. TCL 40″ snjallsjónvarp
 3. JBL Charge 5 bluetooth hátalari í lit að eigin vali

Grunnskólavinningar

 1. Apple iPhone 12 64GB í lit að eigin vali
 2. Samsung Galaxy Tab A7 spjaldtölva
 3. JBL Live 650 bluetooth heyrnartól í lit að eigin vali

Í sumar verður skipuð dómnefnd og sagt frá henni á heimasíðunni www.birkiskogur.is

Úrslit verða tilkynnt í byrjun vetrar

Nánari upplýsingar um keppnina veitir Áskell Þórisson í síma 896 3313 og Kristinn H. Þorsteinsson í síma 834 3100.

Netfang keppninnar er stuttmynd2021@birkiskogur.is

Birkifræsöfnun Landsátak

Hvenær er best að safna birkifræi?

Safna má birkifræi frá lokum ágúst og fram í byrjun október. Eða svo lengi sem rekklar eru á birkitrjánum. Nota ílát sem binda má framan á sig, svo báðar hendur séu lausar í fræsöfnunina. Hvenær best er að safna birkifræi fer eftir þroska og tíðarfari. Yfirleitt hefur verið mælt með frætínslu í september og október, en í hlýjum árum mætti byrja tínslu fyrr þ.e. frá lokum ágúst. Sjá nánar hér.

Bestur árangur í hálfgrónu landi

Þó margir staðir henti til birkisáningar er ekki hægt að sá hvar sem er. Velja þarf staði þar sem fræin geta spírað og vaxtarskilyrði eru heppileg fyrir fræplönturnar. Búast má við bestum árangri á hálfgrónu landi og þar sem gróðurþekjan er ekki of þétt, t.d. á hálfgrónum melum og hraunum og landgræðslusvæðum þar sem gróður er gisinn. Svæði sem nýlega hafa verið beitarfriðuð eru gjarnan mjög heppileg því þar eru enn beitarummerki sem gefa færinu gott set til að spíra.

Samvinnuverkefni Þjóðleikhússins og þeirra sem standa að birkifræsöfnunarátakinu

Hæ! Takk fyrir að koma á sýninguna Kafbátur í Þjóðleikhúsinu, vonandi fannst þér gaman.

Eftir sýninguna fékkst þú birkifræ. Hvað er nú eiginlega hægt að gera við þessi fræ?

Hér eru hugmyndir að verkefnum sem hægt er að gera núna strax. Vonandi lærir þú eitthvað nýtt um birki og hvað þarf að gerast í lífi fræjanna svo þau spíri og verði að birkitrjám. Fáið einhvern fullorðinn (foreldri, systkini, vin eða kennara) til að hjálpa ykkur og þið getið kannski kennt þeim hvað það er mikilvægt að fara vel með náttúruna.

Vissir þú að þegar víkingarnir komu til Íslands fyrir þúsund árum síðan þá var birkiskógur út um allt? Í birkiskóginum eru einnig margar tegundir af öðrum lífverum sem treysta á skóginn, þar á meðal alls konar plöntur, fuglar, smádýr og sveppir. Lífbreytileikinn var mikill í þessum skógum en þegar maðurinn fór að nýta skóginn of mikið þá eyðilögðust þeir á mörgum stöðum. Lífbreytileikinn minnkaði og landið varð bert og illa farið á mörgum svæðum. Núna er átak í gangi við að fá skóginn til baka og þú getur tekið þátt í því með því að tína fræ á haustinn og sá fræjunum á svæði sem eru illa farin. En núna getur þú gert nokkrar tilraunir með fræin þín, þau eru mjög dýrmæt, sérstaklega ef þú ímyndar þér að þú búir í kafbát.

Skoðaðu fræ. Skoðaðu fræin vel með stækkunargleri. Það er eins og það sé með tvo vængi. Af hverju heldur þú að þau séu svona í laginu? Prófaðu að láta eitt og eitt fræ falla til jarðar á meðan þið blásið létt á þau. Hvað gerist?
Flugkeppni. Hvað getur þú látið birkifræ fljúga langa leið? Fáðu foreldra, systkini eða vini með í þessa keppni. Þið getið fyrst keppt um hver getur blásið fræinu sínu lengst en svo er hægt að prófa að nota viftu, blævæng, hárþurrku og fleira sem ykkur dettur í hug.
Láttu fræ spíra. Settu nokkur birkifræ í blauta bómull á bakka eða disk. Skrifaðu niður hvaða dag þið byrjuðuð tilraunina. Settu glært lok yfir, t.d. lok af jógúrtdós. Hafðu smá bil á milli fræjanna og passaðu að bómullin sé alltaf blaut. Vökvaðu á hverjum degi svo fræin þorni ekki. Taktu líka lokið af í smá stund á hverjum degi svo það lofti um fræin. Gerðu þessa tilraun á björtum stað en ekki láta sólina skína beint á fræin. Gluggi sem snýr í vestur er t.d. mjög góður. Tilraunin tekur 7-15 daga, kannski aðeins lengur. Þú verður því að vera þolinmóð/ur og ekki gefast upp! Fylgstu með því þegar fræin byrja að spíra og skrifaðu niður á hvaða degi þú sást fyrstu spíruna koma út úr fræinu. Og nú er bara að fylgjast með og telja hversu mörg fræ spíruðu. Voru einhver fræ sem vöknuðu ekki?
Sáðu fræjum. Sáðu nokkrum birkifræjum í mold í potta (t.d. eggjabakka eða mjólkurfernur) og settu á bjartan stað, t.d. vesturglugga. Passaðu að moldin þorni ekki og hugsaðu vel um plönturnar fram á sumar. Pottarnir mega fara úr í garð eða út á svalir í sumar og svo getur þú fundið góðan stað til að gróðursetja birkiplönturnar þínar.

Til minnis

Sáning birkifræs að hausti eða snemma vors

 • Á yfirborð
 • Þjappa fræið niður, t.d. með því að ganga yfir svæðið
 • Lítið á hvern blett
 • Veljið staði þar sem ykkur sýnist helst vera einhver raki til staðar
 • Setjið fræ ekki í beran sand eða bera mold

Hentug sáningarsvæði

 • Hálfgróin holt og hálfgrónar skriður
 • Landgræðslusáningar þar sem gróður er tekinn að gisna
 • Gisnar lúpínubreiður
 • Svæði þar sem gróðursvörður hefur rofnað vegna beitar og annað hálfgróið landmeð stöðugu jarðvegsyfirborði

Óhentug sáningarsvæði

 • Mjög þéttar lúpínubreiður
 • Algrónir móar
 • Algróið graslendi
 • Þykkar mosaþembur
 • og annað algróið land með þéttum gróðri

Óstöðugir moldar- og sandmelar og annað lítt gróið land þar sem er sandfok, frostlyfting eða aðrar aðstæður sem gera smáplöntum erfitt fyrir. Þar má þó skapa skilyrði fyrir landnám birkis með:

 • takmarkaðri uppgræðslu
 • lífrænum eða tilbúnum áburði
 • öðrum aðgerðum er auka frjósemi og stöðugleika jarðvegsyfirborðsins

Hafa samband

Kristinn H. Þorsteinsson, verkefnisstj. s. 834 3100

Áskell Þórisson s. 896 3313

birkiskogur@birkiskogur.is

 • Ilmbjörk (Betula pubescens) eða birki er algengasta skógartréð á Íslandi

 • Birkiskógar eru einu náttúrulegu skógar landsins